Viðburðir framundan
Viðburðir framundan

Hádegi í París

Líttu inn í hádeginu

  • 27.9.2017, 12:15, Frítt inn

Hafdís Vigfúsdóttir flautuleikari og Svanur Vilbergsson gítarleikari leika tónlist eftir Poulenc, Ibert, Debussy og Ravel.

Menningarhúsin í Kópavogi bjóða upp á dagskrá í hádeginu á miðvikudögum í vetur. Salurinn býður fólki að líta inn og njóta fagurra tóna í hádeginu einu sinni í mánuði og eru þessir tónleikar hluti af þeirri dagskrá

Efnisskrá:

Maurice Ravel (1875 - 1937): Pavane pour une infante féfunte (úts. Konrad Ragossnig)

Francis Poulenc (1899 - 1963): Mouvements perpétuels (1918) (úts. Arthur Levering)
I. Assez modéré
II. Très modéré
III. Alerte

Claude Debussy (1862 - 1918): La fille aux cheveux de lin (úts. Stefan Nesbya)

Jaques Ibert (1890 - 1962): Entr'acte

Maurice Ravel: Pièce en forme de habaneraFerilskrár:

Hafdís Vigfúsdóttir hefur lokið burtfararprófi í flautuleik frá Tónlistarskóla Kópavogs, B.Mus. gráðum frá Listaháskóla Íslands og Konunglega Konservatoríinu í Den Haag í Hollandi, sem og fjórum diplómum í flautuleik og kammertónlist frá Konservatoríinu í Rueil-Malmaison í Frakklandi, auk mastersgráðu frá Tónlistarháskólanum í Osló. Aðalkennarar Hafdísar gegnum tíðina hafa verið þau Guðrún Birgisdóttir, Martial Nardeau, Philippe Pierlot, Juliette Hurel, Per Flemström og Tom Ottar Andreassen. Árið 2010 hlaut Hafdís önnur verðlaun í “Le Parnasse”, alþjóðlegri tónlistarkeppni í París. Hafdís hefur komið fram sem einleikari með Íslenska flautukórnum, Kammersveit Reykjavíkur, Ungfóníu, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Á námsárunum lék hún með ýmsum hljómsveitum, m.a. Ungdomssymfonikerne, Orchestra NoVe og Norsku útvarpshljómsveitnni (KORK). Hafdís hefur frá því hún flutti heim gegnt lausamennsku við Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveit Íslensku óperunnar, auk þess að flytja kammermúsík af ýmsum toga. Hún er ein þriggja stofnenda og listrænna stjórnenda tónlistarhátíðarinnar Bergmál á Dalvík. Hafdís er stjórnarmeðlimur Íslenska flautukórsins. Hún stundar mastersnám í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands og kennir á flautu við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.


Svanur hóf gítarnám sitt 11 ára gamall m.a. hjá Torvald Gjerde, Garðari Harðarssyni og Charles Ross við Tónlistarskóla Stöðvarfjarðar og Tónlistarskólann á Egilsstöðum. Sautján ára fór hann til Englands til náms við King Edwards VI menntaskólann í Totnes þar sem gítarkennari hans var Colin Spencer og útskrifaðist þaðan af tónlistar- og líffræðibraut árið 2001. Þaðan hélt hann til Spánar og sótti þar einkatíma hjá Arnaldi Arnarssyni við Escola Luther. Árið 2002 hóf Svanur nám hjá ítalska gítarleikaranum Carlo Marchione við Tónlistarháskólann í Maastricht og lauk þaðan B.Mus. gráðu vorið 2006. Sama ár hóf hann mastersnám hjá Enno Voorhorst við Konunglega Tónlistarháskólann í Haag sem hann lauk vorið 2008. Þá hefur hann einnig sótt tíma hjá Sonju Prunnbauer í Freiburg.

Hann hefur haldið einleikstónleika víða um heim, m.a. í Bandarikjunum, Hollandi, Spáni, Englandi, Belgíu og Írlandi. Honum er reglulega boðið að spila í Casa Eulalia tónleikaröðinni á Mallorca og á nútímatónlistarhátíðinni Klanken Festival í Maastricht. Nýverið frumflutti hann tónverk eftir spænska tónskáldið Mateau Malondra Flaquer sem er sérstaklega tileinkað Svani. Hann hefur komið fram í sjónvarpi í Bandaríkjunum og á Spáni og var valinn fyrir Íslands hönd til þátttöku í norsk-íslenska menningarverkefninu Golfstraumurinn.

Hafdís og Svanur eru meðlimir Quartetto a muoversi ásamt Björk Níelsdóttur sópransöngkonu og Grími Helgasyni klarinettuleikara.