Viðburðir framundan
Viðburðir framundan
  • Tónstofa Valgerðar

Hljómvangur Tónstofu Valgerðar  

Afmælistónleikar

  • 28.5.2017, 15:00, 1.000,-

Í tilefni af þrjátíu ára starfsafmæli Tónstofunnar hefur á Hljómvangi skólans verið fagnað með ýmsu móti. Við blásum nú til afmælistónleika þar sem fram koma nemendahópar Tónstofunnar.

Við fáum einnig til liðs við okkur góða gesti: Unnstein Manuel Stefánsson, nemendur úr Skólahljómsveit Austurbæjar undir stjórn Vilborgar Jónsdóttur, og strengjakvartett frá Tónskóla Sigursveins undir stjórn Helgu Þórarinsdóttur. Kynnir á tónleikunum er Ingibjörg Fríða Helgadóttir.

Tónstofa Valgerðar heldur upp á þrjátíu ára starfsafmæli sitt og Bjöllukórinn upp á tuttugu ára afmæli sitt þetta skólaár. Af því tilefni hefur á Hljómvangi skólans verið fagnað með ýmsu móti. Nemendur úr Skólahljómsveit Austurbæjar hafa til dæmis æft og flutt með nemendum Tónstofunnar Dýralög samin af Haraldi V. Sveinbjörnssyni. Strengjasveit frá Tónskóla Sigursveins æfir með Bjöllukórnum tónlist útsetta af Snorra Sigfúsi Birgissyni og verður hún flutt á tónleikunum ásamt Dýralögum Haraldar. Kammerkór Tónstofunnar sem mun taka þátt í Jónsmessuhátíð í Lettlandi í lok júní stígur á svið sem og Vinir sem er popphljómsveit skólans. Auk nemendahópanna og kennara skólans munu Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, Valgeir Daði Einarsson og Sigurður Einarsson stíga á svið.  Sérstakur gestur á þessum afmælistónleikum er Unnsteinn Manúel Stefánsson sem mun gleðja okkur með söng sínum og leik. Á milli tónlistaratriða verður skyggnst í þrjátíu ára sögu skólans með máli og myndum. Boðið verður upp á afmæliskaffi að loknum tónleikum.

Í Tónstofu Valgerðar fer fram tónlistarkennsla fyrir nemendur sem vegna fatlana og eða sjúkdóma þurfa sérstakan stuðning. Tónstofan er eini tónlistarskólinn á landinu þar sem þessir einstaklingar njóta forgangs. Framvinda og markmið kennslunnar sem og kennsluaðferðirnar taka mið af forsendum, þörfum og óskum hvers einstaks nemanda. Nemandi í Tónstofunni getur lagt stund á hefðbundið tónlistarnám. Hann getur einnig notið fjölþættrar tónlistarkennslu og þjálfunar sem beinist að því að efla tónnæmi hans og tónlistarfærni, bæta líðan hans og veita sköpunarþörfinni útrás. Í þessu felst sérstaða Tónstofu Valgerðar um leið og hún fylgir þeim megin markmiðum sem eru skilgreind í aðalnámskrá tónlistarskóla og skólanámskrá Tónstofunnar.

Forráðamenn Tónstofunnar og nemendur hennar þakka kærlega öllum þeim sem sýnt hafa Tónstofunni velvilja og stuðning á liðnum árum.

https://www.tonstofan.is

https://www.facebook.com/tonstofavalgerdar/