Tíbrá áskrift 20% afsláttur

Tíbrá tónleikaröðinni í Salnum hefur verið einstaklega vel tekið af tónleikagestum það sem af er vetri. Við hvetjum því alla til að nýta sér forsöluafsláttinn og kaupa miða í tíma. Miði á tónleika í Tíbrá er góð gjöf sem mun gleðja tónlistarunnendur.

Átta tónleikar verða á dagskrá í Tíbrá vorið 2018. Í janúar mun víóluleikarinn Ásdís Valdimarsdóttir ásamt píanóleikaranum Marcel Worm flytja tónlista eftir ofsótt tónskáld 20. aldarinnar. Meðal tónskálda eru Weinberg, Kattenburg og Shostakovich - sum verkana hafa ekki áður verið flutt hér á landi.

Í febrúar höldum við okkur við 20. öldina þegar okkar ástsæla söngkona Þóra Einarsdóttir og einn okkar besti píanóleikari Peter Máté bjóða uppá 20. aldar sönglagaveislu á fimm tungumálum: Ensku, ungversku, þýzku, frönsku og rússnesku. Lagaflokkar On This Island eftir Benjamin Britten, Ungversk þjóðlög eftir Béla Bartók, Brettl lieder eftir Arnold Schönberg, Ariettes Oubliées eftir Claude Debussy eru ekki þeir þekktustu í tónlistarsögunni og sönglög Sergejs Rakhmanínovs heyrast einnig sjaldan á tónleikum - úr þessu verður bætt á tónleikunum í febrúar.

Í mars stígur á svið ung og efnileg sópransöngkona, Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, ásamt píanóleikaranum Evu Þyri Hilmarsdóttur og fagnar vorkomunni með norrænum sönglögum. Á tónleikunum munu meðal annars hljóma lög eftir E. Grieg, J. Sibelius, Jórunni Viðar og frumflutningur laga eftir Guðmund Emilsson. Eru þetta fyrstu opinberu tónleikar Álfheiðar eftir að hafa lokið framhaldsnámi frá Hanns Eisler tónlistarháskólanum í Berlín - en þaðan mun hún ljúka bakkalárnámi í febrúar 2018.

Á tónleikum brasskvintettsins Hexagon verður stríðsárasveiflan í algleymingi þegar þeir flytja efnisskrá með verkum sem Glenn Miller Band gerði ódauðleg á millistríðsárunum. Hexagon skipa þeir Einar Jónsson, Eml Friðfinnsson, Jóhann Ingvi Stefánsson, Nimrod Ron og Vilhjálmur Ingi Sigurðarson.

Valgerður Guðnadóttir ásamt hljómsveit flytja ástkær dægurlög þjóðarinnar sem öll hafa yfir sér ljóðrænan blæ  í bland við frumflutning laga eftir Valgerði Guðnadóttur og Helgu Laufeyju Finnbogadóttur. Fjölbreytt og aðgengileg dagskrá þar sem lög eins og Við arineld eftir Magnús Eiríksson, Ljóð um ástina eftir Spilverkið, Orfeus og Evridís eftir Megas og The man with the child in his eyes eftir Kate Bush við íslenskan texta verða flutt í glænýjum útsetningum um miðjan mars.

Í apríl stíga söngkonurnar Hallvegi Rúnarsdóttir og Sigríður Ósk Kristjánsdóttir og píanóleikarinn Hrönn Þráinsdóttir á svið í Salnum og flytja sígilda dagskrá með nýjum sönglögum og þjóðlagaútsetningum Jónasar Ingimundarsonar í bland við gullfallega dúetta og sönglög eftir meðal annarra Brahms, Delibes, Purcell og Rossini.

Síðustu tónleikar vetrarins verða með nokkuð nýju sniði en þá bjóða sellóleikarinn Ólöf Sigursveinsdóttir, víólu- og píanóleikarinn Bjarni Frímann Bjarnason og fiðluleikarinn Páll Palomares til kaffitónleika þar sem fyrst verða flutt verk eftir Strauss og Beethoven en að loknum tónleikum verður boðið upp á kaffi og spjall við tónlistarmennina.

Sem fyrr segir er 20% afsláttur á Tíbrá tónleika vorsins ef keyptir eru miðar á þrenna tónleika eða fleiri. Fullt miðaverð er 4.200 kr. en með afslætti fást þeir á 3.600 kr.