Viðburðir framundan
Viðburðir framundan

VorSól(ó)

Menning á miðvikudögum

  • 9.5.2018, 12:15, Frítt inn

Steinunn Vala Pálsdóttir lauk framhaldsnámi frá Tónlistarskóla Kópavogs undir handleiðslu Guðrúnar S. Birgisdóttur vorið 2011. Þaðan hélt hún í bakkalárnám hjá Martial Nardeau við Listaháskóla Íslands og lauk námi vorið 2014. Hún lauk mastersgráðu frá Musikhögskolan i Malmö vorið 2017 með Anders Ljungar-Chapelon sem aðalkennara. Steinunn hefur m.a. spilað með með Óperuhljómsveitinni í Malmö (Malmö Opera), Sinfóníuhljómsveit Helsingborgar (Helsingborgs Symfoniorkester), Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Ungfóníu, Kammersveitinni Elju, Caput Ensemble og fleira. Hún er einnig meðlimur í flautusveit Bjarkar sem spilaði inn á hennar nýjustu plötur, Utopia, og mun spila með henni á komandi tónleikaferðalagi.

Efnisskráin

Brian Ferneyhough - Cassandra's Dream Song (1970)

Verk Ferneyhough hafa löngu verið þekkt fyrir flókna nótnaskrift og tæknilega erfiðleika. Cassandra's Dream Song fyrir einleiksflautu er eitt af mörgum einleiksverkum hans fyrir hljóðfærið en það er af mörgum talið með hans aðgengilegustu verkum. Verkið þykir mjög krefjandi og viðurkennir Ferneyhough að hlutar verksins séu nánast óspilandi en hann er sjálfur flautuleikari og er líklegt að hann hafi getað spilað hluta verksins þó hann hafi aldrei spilað það opinberlega. Verkið er í dag talið eitt af mikilvægustu flautuverkum 20. aldar, ef ekki tónlistarsögunnar. 

Karlheinz Stockhausen - Solo nr. 19 (1965-66)

Solo nr. 19 (for a melody instrument with feedback) er verk fyrir hvaða laglínuhljóðfæri sem er og elektróník. Upprunalega var verkið hugsað fyrir einn hljóðfæraleikara og fjóra aðstoðarmenn sem léku á hljóðband (e. tape-delay) og umbreyttu hljóðfæraleiknum á staðnum. Verkið hefur þróast samhliða tækniþróun og er því í dag hægt að flytja með hjálp eins aðstoðarmanns og tölvuforrits. Verkið er því mikið samstarfverk hljóðfæraleika og aðstoðarmanns. Verkið er flutt með sérstakri aðstoð Stefáns Ólafs Ólafssonar.