Viðburðir framundan
Viðburðir framundan

Eyjaplatan vinsæla 50 ára!

Guðrún Gunnarsdóttir og Stefán Hilmarsson

  • 4.5.2018, 20:00, 5.900

Í ár eru 50 ár liðin frá útgáfu einnar vinsælustu hljómplötu 20. aldarinnar. Platan inniheldur fjórtán vinsælustu Eyjalög Oddgeirs Kristjánssonar í einstaklega skemmtilegum útsetningum Ólafs Gauks, sungin af Svanhildi Jakobsdóttur og Rúnari Gunnarssyni. Urðu flest laganna fádæma vinsæl og mikið leikin í útvarpi, enda seldist platan eins og funheitar lummur.

Í tilefni af þessum tímamótum ætla Guðrún Gunnarsdóttir og Stefán Hilmarsson að efna til heiðurstónleika í Salnum þann 4. maí n.k. Þeim til fulltingis verður vitaskuld fyrirtaks hljómsveit, en auk þess sérstakur heiðursgestur, sjálf Svanhildur Jakobsdóttir, sem mun að sjálfsögðu taka lagið. Annar heiðursgestur verður Jón Þór Hannesson, sé er hljóðritaði plötuna. Ætla Stefán og Guðrún að spjalla aðeins við Jón um upptökuna, listafólkið, tíðarandann og tæknitrix þess tíma.

Missið ekki af þessu einstaka tækifæri til að sjá og heyra "Fjórtán lög frá Þjóðhátíð Vestmannaeyja eftir Oddgeir Kristjánsson", eins og þau hljómuðu árið 1968.