Viðburðir framundan
Viðburðir framundan

Draumskógur - dægurlög í nýjum búning

Tíbrá tónleikaröð

  • 16.3.2018, 20:00, 4200

Valgerður Guðnadóttir, Matthías Stefánsson, Helga Laufey Finnbogadóttir, Guðjón Steinar Þorláksson og Erik Qvick flytja ástkær dægurlög þjóðarinnar.

Við bjóðum  20% afslátt ef keyptir eru miðar á þrenna tónleika eða fleiri í áskrift í Tíbrá tónleikaröðinni! 

                                                                    Kaupa áskrift


Tónleikar þar sem ástkær dægurlög þjóðarinnar sem öll hafa yfir sér ljóðrænan blæ eru flutt í bland við frumflutning laga eftir Valgerði Guðnadóttur og Helgu Laufeyju Finnbogadóttur. Fjölbreytt og aðgengileg dagskrá þar sem lög eins og Við arineld eftir Magnús Eiríksson, Ljóð um ástina eftir Spilverkið, Orfeus og Evridís eftir Megas og The man with the child in his eyes eftir Kate Bush við íslenskan texta verða flutt í glænýjum útsetningum. Lögin er flest að finna á plötunni Draumskógur sem kom út árið 2010.

Valgerður Guðnadóttir nam við Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Kolbrúnu Sæmundsdóttur og útskrifaðist þaðan vorið 1998. Eftir það hélt hún til London þar sem hún stundaði söngnám hjá prof. Lauru Sarti við framhaldsdeild Guildhall School of Music and Drama. Hún hóf söngferil sinn með hlutverki Maríu í West Side Story í Þjóðleikhúsinu 18 ára gömul. Síðan þáhefur hún sungið og leikið á ólíkum vettvangi, t.d. hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og Íslensku Óperunni. Valgerður hefur komið víða fram sem einsöngvari hér heima og erlendis, m.a. áopnunarhátíð Hörpu og margoft með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hefur leikið í sjónvarpsleikritum, stýrt sjónvarpsþætti, lesið inn á teikimyndir og sungið inn á ótal hljómplötur. Valgerður söng hlutverk Maríu í Söngvaseiði og hlaut fyrir það Grímuna, Íslensku leiklistarverðlaunin, sem Söngvari ársins. Valgerður hefur farið með mörg hlutverk á ferlinum, allt frá söngleikjum til óperu eins og t.d. Fantine í Vesalingunum, Papagenu í Töfraflautunni, Mercedes í Carmen og Barbarinu í Brúðkaupi Fígarós. Síðastliðið haust fór hún með hlutverk Bertu í Rakaranum frá Sevilla hjá Íslensku Óperunni en fyrir það hlutverk hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem söngkona ársins í flokknum sígild- og samtímatónlist.  Valgerður hlaut starfslaun listamanna í 12 mánuði í janúar sl. 

Matthías Stefánsson nam fiðluleik við Tónlistarskóla Akureyrar frá fimm ára aldri til sextán ára aldurs. Fyrstu tíu árin hjá Lilju Hjaltadóttur og síðasta árið hjá Önnu Podhajska ásamt því að sækja tíma til Guðnýjar Guðmundsdóttur. Matthías tók 7. stig í fiðluleik frá Akureyri en lauk svo 8. stiginu frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 2002, undir handleiðslu Mark Reedmann ásamt því að stunda nám við gítarleik í Tónlistarskóla F.Í.H. Matthías hefur verið starfandi tónlistarmaður síðan 2002 ásamt því að kenna á fiðlu og gítar. Hann hefur spilað á yfir 100 geisladiskum og starfað með flestum þekktari tónlistarmönnum Íslands og verið meðlimur í ýmsum hljómsveitum. Hann hefur tekið þátt í fjölda tónleikauppfærslna hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Íslensku Óperunni, Íslenska dansflokknum, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit Íslands. 

Helga Laufey Finnbogadóttir lauk burtfararprófi á píanó frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og stundaði síðan framhaldsnám við Sweelinck tónlistarháskólann í Amsterdam, fyrst í klassískri tónlist en söðlaði yfir í jazzdeild skólans og útskrifaðist þaðan 1994. Hún hefur starfað við marga tónlistarskóla sem undirleikari,m.a. við Söngskólann í Reykjavík, söngdeild Tónlistarskóla FÍH, Domus Vox, Tónskóla Sigursveinsog Söngleikjadeild Söngskóla Sigurðar Demetz auk þess að kenna á píanó við Tónlistarskólann áSeltjarnarnesi. Hún hefur tekið þátt í tónleikahaldi innanlands og utan meðal annars í Norræna húsinu, á Gljúfrasteini og Múlanum. 

Guðjón Steinar Þorláksson lauk burtfaraprófi á kontrabassa frá Tónlistarskóla Kópavogs og kennaraprófi frá Kennaraháskólanum. Hann hefur kennt við Tónskólann Do Re Mí frá árinu 1995 og Tónlistarskólann á Seltjarnarnesi frá árinu 1996 þar sem hann er aðstoðarskólastjóri. Guðjón hefur spilað jöfnum höndum klassíska tónlist, dægurtónlist og jazztónlist með hinum ýmsum tónlistarmönnum hér á landi. Hann hefur meðal annars spilað á Múlanum, Stofutónleikum á Gljúfrasteini og í Norræna húsinu. 

Erik Qvick stundaði framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Ingesund og lauk Masters gráðu 1998. Aðalkennarar hans þar voru Terje Sundby, Magnus Gran og Raymond Strid. Þá hélt hann til Gautaborgar og lék þar með jazz- og blústónlistarmönnum, m.a. inn á plötur hjá tompettleikaranum Lasse Lindgren, The Instigators. Árið 2000 flutti hann til Reykjavíkur og hefur kennt þar síðan við tónlistarskóla FÍH. Erik hefur spilað með og leikið inn á plötur með vel flestum íslenskum jazztónlistarmönnum og einnig komið fram í sjónvarpi og útvarpi.