Viðburðir framundan
Viðburðir framundan

Strauss og Beethoven – kaffitónleikar

Tíbrá tónleikaröð

  • 15.4.2018, 16:00, 4200


EFNISSKRÁ

Richard Strauss (1864 – 1949)
        Sónata fyrir selló og píanó op. 6 í F-dúr

                     
Allegro con brio
                     Andante ma non troppo
                     Allegro vivo

Ludwig van Beethoven (1770 – 1827)
         Strengjatríó Op. 9 nr. 3 í c-moll
                   
 Allegro con spirit
                     Adagio con espressione
                     Scherzo
                     Finale

UM FLYTJENDUR

Páll Palomares er einn af fremstu fiðluleikurum landsins. Hann hóf fiðlunám sex ára gamall undir handleiðslu foreldra sinna, Unnar Pálsdóttur og Joaquín Palomares. Hann gegnir nú stöðu leiðara 2. fiðlu í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Áður gegndi hann sömu stöðu hjá Randers Kammerorkester í Danmörku. Páll lauk meistaragráðu við Konunglega Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn árið 2015 og stundar nú sólistanám við sama skóla undir handleiðslu fiðluleikarans Serguei Azizian. Hann lauk einnig bakkalárgráðu í hinum virta Hochschule für Musik "Hanns Eisler" í Berlín árið 2013. Kennari hans var Prof. Ulf Wallin. Áður en Páll hóf námsferil sinn erlendis lauk hann námi við Tónlistarskóla Kópavogs og Listaháskóla Íslands þar sem hann naut leiðsagnar Margrétar Kristjánsdóttur og Auðar Hafsteinsdóttur. Hann hefur leikið fjölda einleikskonserta með hljómsveitum á íslenskri og erlendri grundu og ber þar hæst að nefna Sibelius- og Tchaikovski´s fiðlukonserta með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Brahms fiðlukonsert með Sinfóníuhljómsveit Árósa og Árstíðirnar eftir Vivaldi með Orchestra Femminile Italiana. Hann leikur á fiðlu frá Vínarborg, smíðuð af Gabriel Lemböck ca. 1850.

Bjarni Frímann Bjarnason lauk prófi í lágfiðluleik frá Listaháskóla Íslands og sigraði einleikarakeppni LHÍ og Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 2009. Hann stundaði nám í hljómsveitarstjórn undir handleiðslu Fred Buttkewitz við Hanns Eisler tónlistarháskólann í Berlín og hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, CAPUT og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Bjarni Frímann stjórnaði flutningi á óperunni UR eftir Önnu Þorvaldsdóttir við óperuna í Osló, í Chur og Basel og einnig á Listahátíð í Reykjavík. Bjarni hefur einnig samið tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir bæði hérlendis og erlendis. Hann hefur komið víða fram með söngvurum sem píanóleikari, kammertónlistarmaður og hljómsveitarstjóri. Má þar nefna samstarf hans og Björk Guðmundsdóttur og starf hans sem aðstoðarhljómsveitarstjóri hjá Íslensku Óperunni. Bjarni var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016

Ólöf Sigursveinsdóttir fór í fyrsta sellótímann 6 ára gömul. Kennarar hennar voru m.a. Nora Kornblueh og Bryndís Halla Gylfadóttir við Tónskóla Sigursveins og Gunnar Kvaran við Tónlistarskólann í Reykjavík. Eftir tónlistarnám hér heima lék Ólöf eitt starfsár með Sinfóníuhljómsveit Íslands en hélt út til frekara náms til Stuttgart. Hún innritaðist í Musikhochschule für Musik und Darstellende Kunst undir handleiðslu sellistans Hans Häublein og útskrifaðist þaðan. Ólöf sótti jafnframt nám í hljómsveitarstjórn og barokksellóleik við sama skóla.  Seinna fékk Ólöf áhuga á dagskrárgerð og lauk Dipl.-Rundfunk-Journalismus við fjölmiðladeild Tónlistarháskólans í Karlsruhe árið 2007. Hún starfaði við þýska útvarpið (SWR2) um tíma og einnig eftir heimkomu til Íslands árið 2008 á rás 1 við dagskrárgerð. Jafnframt stundaði hún tónleikahald og átti þátt í stofnun kammerhópsins ReykjavíkBarokk árið 2012.
Aðalstarf Ólafar er að  leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands, kenna á selló og jafnframt að hvetja unga strengjaleikara í strengjasveit. Ólöf er framkvæmdastjóri Berjadaga tónlistarhátíðar og fyrr á árinu stofnaði hún ásamt fleirum Íslenska strengi.  Ólöf leikur einleikskonsert eftir J.M.Molter á Sumartónleikum í Skálholti 14. júlí nk.       

Tónleikagestum verður boðið upp á kaffi og spjall við tónlistarmennina að loknum tónleikum í forsal Salarins.