Viðburðir framundan
Viðburðir framundan

Sólin glitrar - gullfallegir dúettar og sönglög

Tíbrá tónleikaröð

  • 8.4.2018, 16:00 - 18:00, 4200

Hallveig Rúnarsdóttir, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir og Hrönn Þráinsdóttir flytja tónlist eftir Jónas Ingimundarson og fleiri höfunda.


Á tónleikunum verður flutt sígild dagskrá með nýjum sönglögum og þjóðlagaútsetningum Jónasar Ingimundarsonar í bland við gullfallega dúetta eftir Mozart, Purcell og Saint-Saëns.
 

Hallveig Rúnarsdóttir hóf söngnám hjá Sigurði Demetz árið 1991. Hún lauk 8. stigi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Rutar L. Magnússon árið 1998. Það sama ár hóf hún nám  hjá Theresu E. Goble við Guildhall School of Music and Drama í London og útskrifaðist þaðan með láði sumarið 2001.
Hallveig hefur sungið nokkur óperuhlutverk, flest hjá Íslensku Óperunni en einnig víðar. Meðal hlutverka hennar eru Donna Anna í Don Giovanni eftir Mozart, Michaëla í Carmen eftir Bizet, Fiordiligi í Cosi fan Tutte eftir Mozart, Gianetta í Ástardrykknum eftir Donizetti, Rödd af himnum í óperunni Don Carlo eftir Verdi og Echo í Ariadne auf Naxos eftir Richard Strauss. Hún hefur komið fram sem einsöngvari víða um heim, hún hefur sungið sópranhlutverkið í mörgum helstu stórverkum tónbókmenntanna og hefur sungið margoft með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk fjölda annarra hljómsveita bæði hér á landi og erlendis.
Hallveig hefur sérstaklega verið virk í flutningi nýrrar tónlistar og hefur frumflutt mörg ný íslensk verk, t.d. á Listahátíð í Reykjavík og á Sumartónleikum í Skálholti, auk upptaka fyrir útvarp.
Hallveig hefur og haldið fjölda einsöngstónleika á Íslandi undanfarin ár þar sem hún hefur lagt áherslu á ljóðasöng.
Hallveig hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngkona ársins í sígildri- og samtímatónlist árið 2013 fyrir hlutverk sitt sem Michaëla í Carmen hjá Íslensku óperunni. Hún var tilnefnd til Grímuverðlauna sem söngvari ársins árið 2014 fyrir sama hlutverk. Hallveig var einnig tilnefnd til Grímunnar á síðasta leikári fyrir söng sinn og leik í hlutverki Donnu Önnu í Don Giovanni eftir W. A. Mozart. Hallveig hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2014 fyrir söng sinn í Deutches Requiem eftir Brahms með Söngsveitinni Fílharmóníu, og var nýlega tilnefnd til sömu verðlauna fyrir söng sinn í 3. Sinfóníu Góreckís með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Meðal næstu verkefna Hallveigar eru Messa í C-moll eftir W.A. Mozart í Færeyjum, Guðbrandsmessa eftir Hildigunni Rúnarsdóttur með Söngsveitinni Fílharmóníu, óratórían Judas Maccabeus eftir G. F. Händel með Kór Neskirkju, Jóhannesarpassía J. S. Bach í Færeyjum og tónleikar með verkum eftir Vivaldi og Purcell með barokksveitinni Camerata Öresund í Danmörku, Svíþjóð og á Íslandi.
Hallveig hefur komið nokkrum sinnum fram með Dómkórnum í Reykjavík, nú síðast í óratóríunni Messías í Eldborg árið 2015. 

Sigríður Ósk Kristjánsdótir mezzó sópran syngur reglulega í óperum, óratoíum og á ljóðatónleikum hérlendis og erlendis.  Hún hefur sungið yfir tuttugu óperuhlutverk m. a. Nunna í Love and Other Demons eftir Peter Eötvös undir stjórn Vladimir Yurovsky (Glyndebourne Opera) í Jakob Lenz eftir Wolfang Rihm (English National Opera), Waltraute í Valkyrjunum (LidalNorth Norske Opera), Arcane í Teseo (English Touring Opera), Arbate í Mitridate (Classical Opera Company). Rosina í Rakaranum frá Sevilla (Íslenska Óperan). Sigríður lauk söng- og píanókennaranámi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og óperudeild , Artist Diploma og meistaragráðu frá Royal College of Music í London. Sigríður sækir nú tíma hjá Sigríði Ellu Magnúsdóttur.  Sigríður Ósk hefur sungið í virtum tónleikasölum eins og Royal Albert Hall, Kings place og Cadogan Hall í London, þar söng hún ásamt Dame Emma Kirkby en tónleikunum var útvarpað á Classic FM. Sigríður söng í beinni útsendingu á BBC 3 fyrir hönd the Classical Opera Company. Söng Sigríðar má einnig heyra á sýningum Cullberg Ballettsins, og á geisladiski “Engel Lund's Book of Folksongs” (Nimbus Records). Sigríður er meðlimur í tónlistarhópnum Symhonia Angelica og fluttu þau barokk-dagskránna Lucrezia á Listahátíð 2016.  Sigríður hélt nýverið einsöngstónleika ásamt Herði Áskelssyni í Hallgrímskirkju og var einsöngvari í sýningunni Óperugala um sumar. Sigríður var einsöngvari í Óðinum til gleðinna á tónleikunum Klassíkin okkar með Sinfóníuhljómsveit Ísland Hún koma fram í Tíbrá tónleikaröðinni í Salnum og var einsöngvari í Te Deum eftir Charpentier og Messu í F-dúr eftir Bach á hátíðartónleikum í Hallgrímskirk.  Sigríður var tilnefnd til Íslensku Tónlistarverðlaunanna 2016 fyrir hlutverk Rosinu og fyrir hlutverk í óratoríunni Salómon sem flutt var á Krikjulistahátíð í Hallgrímskirkju, hún var einnig tilnefnd 2017 fyrir flutning á Lucreziu eftir Handel á Listahátíð í Reykjavík.

Ummæli úr fjölmiðlum:

“Hún er mögnuð söngkona. Eins og nærri má geta er tónlistin gríðarlega átakamikil og Sigríður skilaði henni á áhrifaríkan hátt til áheyrenda. Röddin var í senn tær og víðfeðm og túlkunin kröftug og full af myrkum tilfinningum.” (Lucrezia, Listahátíð 26. Maí 2016)
                                                     Jónas Sen, Fréttablaðið.

“ The greatest pleasure lies in the singing of the minor character, Arbate, stylish and sweet in the voice of the Icelandic mezzo soprano Sigridur Osk Kristjansdottir.”
                                                      Hilary Finch, The Times.

Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari stundaði nám hjá Erlu Stefánsdóttur og síðar hjá Jónasi Ingimundarsyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík.
Í Þýskalandi stundaði hún nám við tónlistarháskólann í Freiburg og síðar við tónlistarháskólann í Stuttgart þar sem hún lauk mastersgráðu við Ljóðasöngdeild skólans.
Hrönn hefur komið fram á tónleikum víða, m.a. í Þýskalandi, Austurríki, Noregi,Ítalíu,Danmörku,Grænlandi, Færeyjum og á Íslandi sem einleikari, meðleikari og við flutning kammertónlistar auk þess að hafa hljóðritað fyrir útvarp og leikið inn á geisladiska.
Hún hefur spilað á fjölda hátíða hér heima og m.a. í Færeyjum á Færeyskum músíkdögum þar sem hún var þátttakandi síðastliðið í sumar.
Hrönn hefur verið virk í flutningi nýrrar tónlistar m.a. á Myrkum Músíkdögum.
Hrönn er kennari við Söngskólann í Reykjavík og við Tónlistarskólann í Reykjavík