Áskriftarkort

Tryggðu þér áskrift að tónleikaröð í Salnum

Gestir Salarins geta valið sér eftirfarandi tónleikaraðir í áskrift og þannig tryggt sér sæti á tónleika í allan vetur. Hægt er að tryggja sér áskrift á netinu með því að smella á neðangreinda linka, í miðasölu Salarins eða hringja í síma 44 17 500 milli kl. 12 og 17 alla virka daga. Við bjóðum viðskiptavinum að greiða miðana með kreditkorti í gegnum síma til að spara þeim sporin. Nóg er að sækja miðana við innganginn þegar komið er á tónleika. 

Af fingrum fram

Jón Ólafsson

Tónleikaröð Jóns Ólafssonar, Af fingrum fram, hóf göngu sína í Salnum fyrir níu árum í kjölfar samnefndra þátta sem voru á dagskrá RUV.  Tónleikarnir eru orðnir tæplega sextíu og hafa vel yfir fimmtán þúsund manns sótt þá og njóta þeir sívaxandi vinsælda enda einstakir tónleikar sem eiga þeir sér enga hliðstæðu. Í vetur endurtók Jón leikinn á RUV við góðar viðtökur.

Á þessum níu árum hafa á þriðja tug tónlistarmanna heimsótt Jón í Salinn, spilað og spjallað við góðar undirtektir áheyrenda. Næsta vetur munu Mugison, Hansa og Björn Jörundur bætast í þann hóp auk þess sem Helgi Björnsson, Sigríður Thorlacius, Andrea Gylfadóttir og Bragi Valdimar munu mæta aftur til leiks með Jóni.

Almennt miðaverð er 4.900 kr. En hægt er að velja sér þrenna tónleika eða fleiri í áskrift og er þá hver miði á 4.150 kr.

Áskriftarkort á Af fingrum fram


Tíbrá lifnar við í vetur

Tíbrá tónleikaröð Salarins heldur áfram í haust þar sem framúrskarandi tónlistarmenn koma fram á fjölbreyttum og áhugaverðum tónleikum.  Á efnisskránni eru tangóar, rómantík, ljóðtónar, jólalög, jazz, klassík, gítartónar og margt fleira. Tónlist eftir Miles Davis, Robert Schumann, Gustav Mahler, Piazzolla, De Falla, Bartók, Sarasate og marga fleiri.

Má þá nefna söngvarana Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur, Jóhann Kristinsson, Gissur Pál Gissurarson, Svanlaugu Jóhannesdóttur, Garðar Thór Cortes, Bergþór Pálsson, Hlöðver Sigurðsson og Viðar Gunnarsson. Gítarleikarana Fransisco Javier Járegui og  Björn Thoroddsen auk Lay Low, Friðriki Karlssyni, Ingó H. Geirdal, Begga Smára, Erlu Stefánsdóttur og Fúsa Óttarssyni. Fiðluleikarann Pál Palomares og píanóleikarann Evu Þyri Hilmarsdóttur. Kvintett skipaður okkar fremstu jazz tónlistarmönnum hefur leikinn í haust með tónleikum með tónlist Miles Davis.

Kvintettinn Of Miles and Men skipaður þeim Ara Braga Kárasyni, Snorra Sigurðarsyni, Kjartani Valdemarssyni, Róberti Þórhallssyni og Einari Scheving hefur leikinn 23. september með tónleikum þar sem þeir leika tónlist af löngum og glæstum ferli trompetleikarans Miles Davis. Í lok september fagnar Gítarveisla Björns Thoroddsen tíu ára áfanga en veislan hóf göngu sína í Salnum árið 2007. Með honum að þessu sinni verða Lay Low, Friðrik Karlsson, Ingó H. Geirdal, Beggi Smári, Erla Stefánsdóttir og Fúsi Óttarsson.

Í október stígur Svanlaug Jóhannsdóttir á svið ásamt fimm mann hljómsveit þremur dönsurum með dunandi tangótónlistarsýningu þar sem lög Piazzoll og annarra tónskálda innblásna af tangótónum verða flutt. Hinn stórefnilegi barítónsöngvari Jóhann Kristinsson ásamt margverðlaunaða píanóleikaranum Ammiel Bushakevitz flytja glæsilega ljóðtóna með verkum eftir Shcumann og Mahler þann 19. október. Tveimur vikum síðar eða 3. nóvember  mætir Duo Atlantica til leiks með mezzósöngkonunni Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur og gítarleikaranum Fransisco Javier Jáuregui og flyta áheyrendur í tónlistarferðalag um latnesku Ameríku, þar sem koma við sönglög frá Argentínu, Puerto Rico, Kúbu, Mexíkó og Brasilíu.

Í nóvember flytja fiðluleikarinn Páll Palomares og píanóleikarinn Eva Þyri Hilmarsdóttir áheyrendur þvert yfir Evrópu í tónum með viðkomu í Ungverjalandi, Þýskalandi og á Spáni. Í lok nóvember setja Sætabrauðsdrengir tóninn fyrir jólin í Salnum með einstökum jólatónleikum þar sem léttleiki og húmor ráða ríkjum eins og þeim einum er lagið. Sætabrauðsdrengina skipa stórsöngvararnir Garðar Thór Cortes, Gissur Páll Gissurarson, Hlöðver Sigurðsson, Bergþór Pálsson og Viðar Gunnarsson.

Tíbrá naut vinsælda síðastliðinn vetur og gefst nú gestum tækifæri til að tryggja sér miða á góðum kjörum á besta sta

Hér er hægt að finna nánari upplýsingar um tónleikana í Tíbrá í haust.

Ef keyptir eru miðar á þrenna tónleika eða fleiri í áskrift fæst 20% afsláttur af miðaverði.

Áskriftarkort í Tíbrá


Líttu inn í hádeginu

Fimmta árið í röð býður Salurinn upp á hálftíma langa hádegistónleika sex sinnum yfir veturinn. Fjölbreytt og vönduð dagskrá undir listrænni stjórn Guðrúnar Birgisdóttur. 

Nánari dagskrá verður kynnt innan skamms.